Stefna

Þróun leigumarkaðar á Íslandi eins og þekkist erlendis

Í dag eru Heimavellir stærsta íbúðaleigufélag landsins á almennum markaði. Félagið hefur markvisst byggt upp trausta innviði samhliða örum vexti til að ná fram nauðsynlegri stærðarhagkvæmni. Það er því vel í stakk búið að takast á við frekari vöxt og fjölbreyttari verkefni.  Þannig leggur félagið sitt lóð á vogarskálarnar til að svara kalli eftir leigufélögum á almennum leigumarkaði að norrænni fyrirmynd með áherslu á örugga langtímaleigu á sanngjörnu verði. 

Framtíðarsýn og markmið

Framtíðarsýn Heimavalla er að stuðla að fjölbreyttum, stöðugum og öruggum húsnæðismarkaði á Íslandi með því að leiða þróun leigumarkaðar eins og þekkist á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu þar sem örugg langtímaleiga er valkostur fyrir almenning. Markmið félagsins er að vera fyrsti valkostur leigjenda á þessum markaði á Íslandi með því að bjóða fjölbreytt og örugg úrræði á húsnæðismarkaði sem mæta þörfum mismunandi hópa.

Markmið félagsins er að bjóða fjölbreytt og örugg úrræði á húsnæðismarkaði sem mæta þörfum mismunandi hópa og vera fyrsti valkostur leigjenda á þessum markaði á Íslandi.

Stefnumarkandi áherslur

Til að vinna að framtíðarsýn félagsins, hafa stjórnendur skilgreint þrjár stefnumarkandi áherslur:

Framúrskarandi þjónusta

Félagið leggur áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini/leigjendur. Í þessu felst:

  • Örugg langtímaleiga og hagkvæmt verð.
  • Skilvirk umsjón með viðhaldi og þjónusta við leigjendur vegna mála sem kunna að koma upp því tengd.
  • Sveigjanleiki þar sem leigjendur geta skipt um íbúð, stækkað eða minnkað við sig eins og kostur er á hverjum tíma, fært sig á milli hverfa eða jafnvel landshluta ef aðstæður breytast, og njóta þá forgangs.
  • Lipur samskipti við leigjendur en félagið leggur áherslu á að nýta sér hagkvæmar rafrænar lausnir í samskiptum við viðskiptavini sína sem gefa öllum viðeigandi góða yfirsýn yfir þau málefni sem eru í gangi hverju sinni.
  • Vinna markvisst með sveitarfélögum þar sem félagið á margar íbúðir til að byggja upp innviði og tryggja góða þjónustu við íbúa.

Vöxtur og þróun nýrra úrræða

Félagið leggur áherslu á að nýta þau tækifæri sem gefast til frekari vaxtar á almennum leigumarkaði með þróun nýrra verkefa og mæta þannig þörf á nýjum úrræðum á leigumarkaði á hverjum tíma. Félagið mun leggja áherslu á eftirfarandi verkefni í nánustu framtíð:

  • Þróun hagkvæmra íbúða fyrir hinn almenna leigumarkað. Nýjar byggingaraðferðir sem byggja á einingum eru spennandi valkostur fyrir Heimavelli sem tryggir stuttan framkvæmdatíma og lægri byggingarkostnað en það sem almennt gerist.
  • Leiguíbúðir fyrir hratt vaxandi hóp eldri borgara. Félagið er að setja fyrstu leiguíbúðirnar á markað fyrir þennan hóp og telur að það séu mikil tækifæri að þjóna þessum hópi fólks með hagkvæmum íbúðum.
  • Þróun úrræða fyrir ungt fólk og stúdenta. Ungmennaíbúðir eru spennandi valkostur sem tekur mið af hönnun stúdentaíbúða í dag og er ætlað fyrir fólk á aldrinum 20-30 ára.

Skilvirkni og einföld yfirbygging

Félagið hefur byggt upp innviði sem taka mið af einfaldri yfirbyggingu en geti þó annað rekstri stórs fasteignasafns. Í þessu felst:

  • Áframhaldandi áhersla á að nýta stærðarhagkvæmni í rekstrinum.
  • Öflug upplýsingatæknikerfi og notendavæn rafræn samskiptakerfi munu gera félaginu kleift að viðhalda einfaldri yfirbyggingu þó svo að félagið bæti við sig hundruðum íbúða til viðbótar.