Fyrirhugaðri skráningu Heimavalla í Kauphöll seinkað

Stjórn og stjórnendur leigufélagsins Heimavalla hafa tekið ákvörðun um að seinka fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll í ljósi aðstæðna á mörkuðum en félagið hefur undirbúið og stefnt að því að skrá félagið á markað á síðasta ársfjórðungi þessa árs. 

Félagið hefur lokið nauðsynlegri undirbúningsvinnu en stjórnendur félagsins meta það svo að tímasetning útboðs, sem hefði orðið skömmu eftir boðaðar kosningar þann 28. október næstkomandi, sé óhentug.

„Við munum fylgjast vel með aðstæðum á markaði og stefnum á að skrá Heimavelli við fyrsta hentugleika. Félagið hefur þegar undirbúið skráningu og við teljum að tíminn muni vinna með okkur við þessar aðstæður,” segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla. „Heimavellir eiga fullt erindi á markað og skráning í Kauphöll er okkur mikilvæg til að styðja við markmið félagsins – sem eru að stuðla að fjölbreyttari og stöðugri húsnæðismarkaði á Íslandi. Við teljum að þróun leigumarkaðar eins og þekkst hefur á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu um áratugaskeið sé mikilvægt framfararskref, sem gerir örugga langtímaleigu á sanngjörnum kjörum að valkosti fyrir almenning.”

Nánar um Heimavelli

Heimavellir er leigufélag að norrænni fyrirmynd sem býður fjölbreytt úrval leiguíbúða fyrir einstaklinga og fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu og víða um land, með áherslu á örugga langtímaleigu, sanngjarnt verð og góða þjónustu. Félagið byggir á gömlum grunni en uppbygging þess hefur fyrst og fremst falist í sameiningu starfandi leigufélaga. Félagið á og rekur um 2000 leigubúðir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Þórshöfn, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ.