Breytingar á stjórn Heimavalla

Breytingar hafa orðið á stjórn leigufélagsins Heimavalla hf. Anna Þórðardóttir og Hildur Árnadóttir hafa verið kjörnar nýjar inn í stjórn félagsins og á sama tíma víkur Magnús P. Örnólfsson úr stjórninni. Aðrir stjórnarmenn sitja áfram en það eru þeir Magnús Magnússon, stjórnarformaður, Halldór Kristjánsson og Ari Edwald.

Heimavellir er leigufélag sem býður gott úrval leiguíbúða fyrir einstaklinga og fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu og víða um land, með áherslu á örugga langtímaleigu á sanngjörnu verði. Félagið byggir á gömlum grunni og er rekið  í anda sambærilegra leigufélaga sem starfrækt hafa verið víða í Evrópu um áratuga skeið. Stefnt er að skráningu félagsins á hlutabréfamarkað á fjórða ársfjórðungi þessa árs og er þá gert ráð fyrir að félagið verði með ríflega tvö þúsund leiguíbúðir í rekstri og verður þar með stærsta leigufélag landsins á almennum markaði.

„Það er fagnaðarefni að fá þær Hildi og Önnu til liðs við okkur,” segir Magnús Magnússon, stjórnarformaður Heimavalla. „Reynsla þeirra og þekking mun án efa styrkja stjórn félagsins í að leiða þróun leigumarkaðar á Íslandi eins og þekkist í nágrannalöndum okkar þar sem örugg langtímaleiga er valkostur fyrir almenning. Þannig munum við leggja okkar að mörkum við að stuðla að fjölbreyttari, stöðugri og öruggari húsnæðismarkaði hér á landi.”

Hildur Árnadóttir er viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi og starfar sem ráðgjafi hjá eigin fyrirtæki, Argyron ehf. Hildur var starfsmaður og síðar meðeigandi hjá KPMG Endurskoðun hf. 1990-2004, fjármálastjóri og ráðgjafi hjá Bakkavör Group hf. 2004-2014 og forstöðumaður fjárstýringar hjá Íslandsbanka 2014-2015. Hildur hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og situr nú í stjórn Rekstrarfélagsins Summu hf. og Eldeyjar TLH hf. Þá á hún jafnframt sæti í Endurskoðunaráði og endurskoðunarnefnd HS Orku hf. 

Anna Þórðardóttir var meðeigandi hjá KPMG ehf. frá 1999 til ársloka 2015 og sat í stjórn félagsins á árunum 2008-2013, en hún hóf störf hjá félaginu 1988. Hún er viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi og stundaði  framhaldsnámi í fjármálafræðum frá Viðskiptaháskólanum í Árósum. Anna situr í stjórn Íslandsbanka þar sem hún er formaður endurskoðunarnefndar og nefndarmaður í áhættunefnd stjórnar. Þá er hún einnig formaður endurskoðunarnefndar Haga hf. og situr í stjórn Framtíðarsetur Íslands ehf. Anna hefur einnig setið í stjórn Félags löggiltra endurskoðenda.

Nánar um Heimavelli

Heimavellir leigufélag var stofnað árið 2014 með samruna þriggja starfandi leigufélaga með það að markmiði að byggja upp öflugt leigufélag að norrænni fyrirmynd og bjóða einstaklingum og fjölskyldum örugga langtímaleigu. Uppbygging félagsins hefur fyrst og fremst falist í sameiningum og yfirtökum starfandi leigufélaga. Í dag eiga og reka Heimavellir hátt í tvö þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ.