135 ný heimili hjá Heimavöllum í Bryggjuhverfinu í Reykjavík

 Á morgun, föstudaginn 1. desember, taka 24 fjölskyldur við nýjum leiguíbúðum í Bryggjuhverfinu í Reykjavík en þá verður sjötta og síðasta íbúðablokk Heimavalla ehf. við Tangabryggju tekin í notkun. Alls eru íbúðirnar 135 talsins og eru leiguíbúðir Heimavalla þá orðnar um tvö þúsund á höfuðborgarsvæðinu og víða um land. Húsin við Tangabryggju eru  stærsta nýbyggingaverkefni sem Heimavellir hafa fjárfest í en félagið hefur á undanförnum árum fyrst og fremst byggst upp með sameiningu þegar starfandi leigufélaga.

„Undanfarin ár hefur umræðan aukist um þörf á úrræðum á leigumarkaði þar sem fólk getur reitt sig á örugga langtímaleigu eins og tíðkast hefur á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu um áratugaskeið,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla. „Markmið okkar er að svara þessu kalli. Við teljum það mikilvægt framfaraskref að þróa hér leigumarkað að norrænni fyrirmynd sem muni stuðla að fjölbreyttari og stöðugri húsnæðismarkaði á Íslandi og gera örugga langtímaleigu að raunhæfum valkosti fyrir almenning.”

Íbúðirnar við Tangabryggju eru tveggja til fimm herbergja. Aðalhönnuður húsanna var Björn Ólafs arkitekt en byggingarverktaki var ÞG verk. Staðsetning húsanna er á framtíðaruppbyggingarsvæði borgarinnar sem tengist fyrirhugaðri íbúðabyggð á Höfðanum, vestur eftir voginum og að Vogabyggð. Á reitnum mun rísa ný byggð þar sem byggt er í samræmi við nútímaþarfir og kröfur.

Nánar um Heimavelli

Heimavellir ehf. er leigufélag sem býður fjölbreytt úrval leiguíbúða fyrir einstaklinga og fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu og víða um land. Áhersla er lögð á örugga langtímaleigu, góða þjónustu og hagstætt verð. Félagið byggir á gömlum grunni en uppbygging þess hefur fyrst og fremst falist í sameiningu starfandi leigufélaga. Stefnt er að skráningu Heimavalla á hlutabréfamarkað á fyrsta ársfjórðungi 2018. Gert er ráð fyrir því að félagið verði við skráningu stærsta leigufélag landsins á almennum markaði með ríflega tvö þúsund leiguíbúðir í rekstri á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ.